top of page

6

Ása Katrín Bjarnadóttir

Nemandi í umhverfisskipulagi

Ása Katrín Bjarnadóttir er fædd á Akranesi árið 1990 og er dóttir Bjarna Einars Gunnarssonar og Valgerðar Olgu Lárusdóttur. Hún er í sambúð með Hauki Óla Ottesen og saman eiga þau börnin Orra, 4 ára, og Sóleyju, 2 ára.

„Við Haukur erum bæði fædd og uppalin á Akranesi og það kom því aldrei neitt annað til greina en að ala börnin okkar upp hér enda er samfélagið afar fjölskylduvænt og hér höfum við sterkar rætur.

Fyrstu 20 ár ævi minnar bjó ég við Krókalónið og lærði á lífið í fjörunni þar og upplifði gríðarleg forréttindi að hafa náttúruna í bakgarðinum.

Ég hef ávallt verið í tónlist og er það stór partur af mér. Í framhaldsskóla var ég í hljómsveitinni Cosmic Call og í dag er ég partur af fiðlusveitinni Slitnir strengir.

Í gegnum tíðina hef ég unnið ýmis störf, t.d. í Elkem, vopnaleit á Keflavíkurflugvelli, sem tjaldvörður í Kalmansvíkinni, kaffibarþjónn og stuðningsfulltrúi í Brekkubæjarskóla.

Hvers vegna bæjarpólitík?

Frá grunnskólaaldri hef ég fundið sterkt í mér að ég vildi hafa áhrif á hlutina í kringum mig. Ég var formaður nemendaráðs í Brekkubæjarskóla og í bæjarstjórn unga fólksins og í dag sit ég í foreldraráði Vallarsels. Bæjarmálin eru spennandi vettvangur þar sem bæjarfulltrúar og íbúar geta haft áhrif á sitt nærumhverfi. Ég tel mikilvægt að ungt fjölskyldufólk sitji í bæjarráði og tali fyrir hag þess hóps og sé partur af ákvarðanatöku um málefni sem snúa beint að þeim sem nýta sér þá þjónustu.

 

Hvað vil ég gera fyrir bæinn okkar?

Skipulags- og umhverfismál eru mér afar hugleikin og ég tel að þar getum við Skagamenn bætt okkur á mörgum sviðum. Í ferðamálum eigum við mikið inni og höfum alla burði til þess að ná langt og gera það vel.
Akranes er dásamlegur staður og ég vil endilega vera partur af því að gera bæinn minn enn betri.“

bottom of page