top of page

1

Valgarður Lyngdal Jónson 

Grunnskólakennari og bæjarfulltrúi

Valgarður fæddist á Akranesi og ólst upp á Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd. Hann hefur búið á Akranesi í 15 ár, hefur starfað við báða grunnskóla bæjarins og kennir nú á unglingastigi Grundaskóla. Eiginkona Valgarðs er Íris Guðrún Sigurðardóttir og eiga þau þrjú börn, Hlín Guðnýju, 24 ára, Jón Hjörvar, 20 ára og Hrafnkel Vála, 14 ára.
 

„Bæjarfélagið á að styðja við það mikla og góða starf sem unnið er með börnum og unglingum hér í bænum á hinum ýmsu sviðum. Fjölbreytileiki og fagmennska eru þar lykilorð. Standa þarf vörð um frístundastarf, leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla bæjarins, sem eru lykilstofnanir fyrir velferð fjölskyldunnar. Samstarfið við íþróttahreyfinguna þarf einnig að vera stöðugt og gott, enda erum við öll hluti af sama samfélaginu og erum samherjar í því verkefni að vinna að velferð barna og fjölskyldna á Akranesi.“

Hvers vegna bæjarpólitík?

„Upphaflega gaf ég kost á mér til starfa við bæjarmálin því ég hugsaði sem svo, að úr því ég hefði skoðanir á samfélaginu sem ég bý í, þá þýddi ekkert fyrir mig að sitja heima og ætlast til þess að aðrir ynnu verkin. Síðustu fjögur ár hafa verið mjög lærdómsrík, það er mikil vinna sem fylgir því að koma að stjórn bæjarfélagsins en það er einnig mjög gefandi og maður öðlast dýrmæta þekkingu og reynslu. Einn mikilvægasti lærdómurinn felst í að gera sér grein fyrir því, að við sem störfum að bæjarmálunum í dag munum ekki endilega sjá árangurinn af okkar vinnu strax, heldur verðum við alltaf að hugsa þannig að ákvarðanir dagsins í dag muni hafa áhrif á lífsgæði íbúa á Akranesi til langrar framtíðar.“

 

Hvað vil ég gera fyrir bæinn okkar?

„Atvinnumálin eru eitt brýnasta verkefni næstu ára, því velferð íbúanna byggist á öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi. Atvinnumálastefna Akraneskaupstaðar var gefin út í maí 2014 í góðri samvinnu og samráði við íbúa og atvinnulífið. Stefnan er góð en nú, fjórum árum síðar, er nauðsynlegt að taka hana upp að nýju og skerpa á stefnu bæjarins í þessum málum. Markmiðum stefnunnar þarf að fylgja eftir með aðgerðaáætlun sem er bæði tímasett og fjármögnuð. Við þurfum að vinda okkur í þetta verkefni og það þolir enga bið.“

bottom of page