top of page

4

Kristinn Hallur Sveinsson

Landfræðingur og varabæjarfulltrúi

Kristinn er fæddur í Reykjavík þann 21. maí 1972. Hann er sonur Sveins Kristinssonar og Gunnvarar Björnsdóttur.
 

„Þegar ég var níu ára fluttum við til Akraness frá Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Áður höfðum við líka búið á Laugarhóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Ég hef átt heima á Akranesi síðan, utan þess tíma er fór í háskólanám í Reykjavík á árunum 1993-1998.

Ég er giftur Margréti Rós Jósefdóttur grunnskólakennara og við eigum þrjú börn, þá Svein Loga sem er 19 ára nemandi við FVA, Almar Daða, 15 ára, og Dag Kára, 10 ára, en þeir eru báðir nemendur í Grundaskóla. Ég hef því átt börn á öllum skólastigum.

Undanfarin fjögur ár hef ég verið varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í skóla- og frístundaráði.

Eftir útskrift frá Háskóla Íslands sem landfræðingur fór ég að vinna hjá Landmælingum Íslands hér á Akranesi.

Árið 2002 réði ég mig hjá Loftmyndum ehf. í Reykjavík. Þar hef ég unnið síðan og keyrt á milli Akraness og Reykjavíkur til vinnu. Hvalfjarðargöng voru á sínum tíma mikil samgöngubót, en það hefur lítið gerst í samgöngumálum milli Akraness og Reykjavíkur síðan. Notendur Hvalfjarðarganga hafa greitt veggjöld í 20 ár og það er ekki forsvaranlegt lengur að rukka áfram eingöngu þá vegfarendur sem fara í norðurátt frá Reykjavík, meðan vegabætur út á Reykjanes og austur fyrir fjall eru greiddar af skattfé almennings.

Málefni fatlaðra eru mér mjög hugleikin. Yngsti sonur okkar Margrétar er fjölfatlaður, hann er með CP og flogaveiki. Hann hefur kennt mér meira um lífið en nokkur annar. Þjónusta við fatlaða er málaflokkur þar sem mæta þarf þörfum hvers og eins. Þar eru ekki til töfralausnir sem virka fyrir alla, einstaklingum þarf að mæta á einstaklingsgrundvelli því þarfir eru mismunandi.“

bottom of page