top of page

2

Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir

Héraðsskjalavörður

Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir er borin og barnfædd á Akranesi. Dóttir hjónanna Jóhanns Ársælssonar, skipasmiðs og fyrrv. alþingismanns, og Guðbjargar Róbertsdóttur, ritara og húsmóður. Hún á börnin Jóhann Ársæl, 17 ára, Hlyn Helga, 13 ára, Guðbjörgu Sóleyju, 8 ára, og Önnu Sylvíu, 5 ára.

Gerður lauk prófi í bókasafns- og upplýsingafræði 2003 og hefur frá tvítugsaldri starfað við mennta- og menningarmál. Þar má helst nefna Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, menntamálaráðuneytið, Borgarbókasafn Reykjavíkur og í fjögur ár var Gerður bæjarbókavörður Sandgerðis. Í dag starfar hún sem héraðsskjalavörður Akraness og hefur sinnt því starfi frá 2007.

„Að mörgu er að hyggja þegar kemur að málefnum fjölskyldunnar og þar sannast að það þarf heilt samfélag til að ala upp barn. Ég er afar þakklát því þegar einhver skiptir sér af börnunum mínum því það þýðir að einhver lætur sig þau varða og er ekki sama um þau.

Ég deili ábyrgðinni á uppeldi barnanna minna meðal annars með skóla-, frístunda- og íþróttasamfélaginu. Þar skiptir mestu máli að samskiptin séu góð, nærfærin og að hagur barnsins sé í fyrirrúmi hafður og þar get ég vitnað um faglega og góða þjónustu í hvívetna. Við þurfum einnig að passa vel að halda utan um þá sem veita þjónustuna og það er nokkuð ljóst að í dag er starfsálag víða orðið of mikið. Ég myndi því vilja sjá að reynt yrði að einhverju leyti að koma til móts við þann vanda með styttingu vinnuvikunnar. Það myndi einnig haldast í hendur við fjölskylduvænna samfélag þar sem samverustundir fjölskyldunnar myndu lengjast.“

Hvers vegna bæjarpólitík?

„Það væri heiður að fá að hafa áhrif á ákvarðanir um framtíð bæjarfélagsins með þátttöku í bæjarstjórn og vinna fyrir íbúana hér. Mér þykir mikilvægt að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og fá umboð bæjarbúa til að taka þátt í að byggja upp bæjarfélag í örum vexti.“

 

Hvað vil ég gera fyrir bæinn okkar?

„Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að að hér í bæ líði sem flestum vel og að stuðla að því að hér sé velferð einstaklingsins frá fæðingu að efri árum höfð í fyrirrúmi. Að lýðheilsa verði í hávegum höfð í heilsueflandi samfélagi íþróttabæjarins.

Að búa í fallegum bæ upphefur andann og því mikilvægt að huga að fegrun umhverfisins og verndun einstakrar strandlengju sem umvefur nesið okkar.“

bottom of page