top of page

3

Bára Daðadóttir

Félagsráðgjafi

Bára Daðadóttir fæddist á Akranesi 5. febrúar 1983 og er dóttir Kristrúnar Sigurbjörnsdóttur og Daða Halldórssonar, en hann lést árið 2007. Bára er gift Karli Jóhanni Haagensen byggingafræðingi og eiga þau börnin Daða, 6 ára, og Kolbrúnu Ernu, 3 ára.
 

„Ég er fædd og uppalin á Akranesi og hef alltaf verið stolt af því að vera Skagamaður. Ég gekk í Grundaskóla og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Þegar ég fór í háskólanám árið 2003 flutti ég til Reykjavíkur og bjó þar til ársins 2015, fyrir utan eitt ár í Danmörku. Samhliða háskólanámi vann ég við ferðaþjónustu ásamt því að vera hóptímakennari í líkamsræktarstöð. Eftir BA-próf í félagsráðgjöf vann ég í Landsbankanum, var frístundaráðgjafi í félagsmiðstöð hjá Reykjavíkurborg og vann sem ráðgjafi á Velferðarsviði Kópavogsbæjar. Í dag starfa ég sem félagsráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Vesturlands og hjá Endurhæfingarhúsinu HVER.“

Hvers vegna bæjarpólitíkin?

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í pólitík en ég hef alltaf verið pólitísk og haft skoðanir á málefnum. Þetta er spennandi vettvangur og ég er viss um að kraftar mínir geta nýst til góðra verka.“

 

Hvað vil ég gera fyrir bæinn okkar?

„Ég vil leggja áherslu á að Akranes er fjölskyldubær þar sem gott er að búa alla ævi. Mér finnst mikilvægt að velferð allra bæjarbúa sé höfð að leiðarljósi og að þjónusta bæjarins snúi að þörfum allra sem í samfélaginu búa. Velferðamál, skóla- og frístundamál og menningarmál eru mér mjög hugleikin auk þess sem ég hef mikinn áhuga á atvinnu- og umhverfismálum.
Mér finnst brýnt að í stjórnsýslunni ríki gagnsæi og fagmennska og að í samfélaginu okkar ríki íbúalýðræði. Bæjarbúar eiga að fá að hafa áhrif á það sem er að gerast í þeirra samfélagi.“

bottom of page